Ferðir og flugmiðar til Saigon - Ho Chi Minh City

Ho chi Minh borg sem áður hét Saigon er stærsta borg í Vietnam og þú finnur strax fyrir iðandi og fjölskrúðugu  mannlífinu ásamt mikilli umferð í þessari erilsömu stórborg. Hér er ógrynni af kaffihúsum, götueldhúsum, mörkuðum og hér er sala á ýmsum varningi á gangstéttunum eins og budda styttum sem flauta þjóðsönginn og margt fleira sem fangar augað. Einnig er matarmenningin spennandi allt frá vorrúllum til tamarinde krabba og fyrir grænmetis unnendur þá er hér algjört mekka af spennandi réttum með  fersku grænmeti og tofu sem er sett saman eftir einstökum buddiskum uppskriftum. En víða um borgina má sjá reisulegar byggingar frá nýlendutíma Frakka og er mikið af áhugaverðum stöðum í borginni ásamt minnismerkjum sem minna á stríðið í Vietnam gegn Bandaríkjunum. Af áhugaverðum stöðum þá eru Cu Chi göngin hreint ótrúlegt mannvirki svo er áhugavert að skoða Saigon safnið, Old Saigon Post Office, Opera House, Jade Emperer Pagoda  og Dong Khoi Street og hofið Cao Dai sem er staðsett aðeins fyrir utan borgina og er einstaklega fallegt.

Ben Thanh markaðurinn

Í borginni eru margir risastórir markaðir þar sem allt er til sölu og er Ben Thanh í miðborginni sá fjölmennasti og nær yfir 11.000 m2. Hér er virkilega hægt að kaupa allt, föt, þurrkaðar og ferskar matvörur, grænmeti, fisk, blóm, rafmagnstæki og minjagripi og þeir nota slagorðið „If we don´t have it, you don´t need it“ Einnig er gaman að upplifa lífleg viðskiptin á fljótandi mörkuðum.

Cu Chi göngin

Cu Chi göngin voru byggð í Vietnamstríðinu og eru 200 km löng. Göngin eru 35 km fyrir utan borgina Ho Chi Minh og er þar einnig lítið safn og salur þar sem hægt er að sjá myndband um sögu ganganna, m.a. hvernig íbúar landsins grófu göngin með einföldum áhöldum og báru bæði steina og mold út í körfum til að fela það sem fram fór fyrir bandaríkjamönnum. Það er ótrúlegt að sjá og ímynda sér hvernig lífið var niðri í göngunum sem eru eins og lítið samfélag og hugsað var fyrir öllu. Það eru tvö göng sem eru opin fyrir ferðamenn við bæina Ben Dinh og Ben Duoc. En þar eru göngin aðeins stærri svo að ferðamenn geti komist þar í gegn og upplifað göngin á hnjánum eða vel boginn í baki.

Cao Dai Great Tempel

Cao Dai hofið er virkilega fallegt og fer með mann í algjöran ævintýraheim. Hofinu er skipt í 9 svæði sem eru tákn fyrir hin 9 þrep til himins. Það eru ekki aðeins skreytingarnar sem eru mjög litríkar heldur einnig andrúmsloftið sem maður upplifir á 1. hæð þegar viðhafnasiðir sem eru haldnir 4 sinnum á dag byrja, sem fer með mann á spennandi og framandi slóðir. Þegar helgisiðinir byrja ganga menn og konur inn frá hver sinni hlið í viðhafnarklæðnaði í bláu, gulu, rauðu eða hvítu allt eftir því hvað hluta af caodaisma maður stendur fyrir. Síðan fyllist hofið af kórsöng og öðrum hljómi sem tilheyrir svo hnakkahárin á manni rísa. Upplifun og sjón sem er vert að heimsækja.

shade